SMT á Kríu

SMT Kríudeildar

Á haustin.
Hvert haust hefjum við innlögn SMT reglna á Kríudeild um leið og aðlögun er lokið og hópurinn orðinn nokkuð góður.
Við byrjum á grunnreglum Lundarsels.
Grunnreglurnar eru:
Glaðir spekingar fara eftir fyrirmælum
Glaðir spekingar hafa hendur og fætur hjá sér
Glaðir spekingar nota innirödd
Þau munu svo fá Bros fyrir að fara eftir reglunum og setja þau í orm sem við erum með upp á vegg.

Reglur eru kenndar á mánudögum. Við minnum á regluna sem við erum að kenna og gefum þeim Bros hvar sem er og hvenær sem er þegar þau fara eftir þeirri reglu sem við á.

Við kynnum fyrir þeim athyglismerki okkar Lundarsela.
Athyglismerkið notum við þegar við þurfum að ná athygli barnanna þegar þau eru mörg saman, t.d. í samveru.

Athyglismerkið er þannig að við klöppum 2x og setjum höndina upp til hálfs þar sem lófinn snýr til þeirra, þau svara merkinu með því að gera eins. Um leið og þau svara erum við komin með athygli þeirra.

Við kennum þeim regluna:
                   * Glaðir spekingar þvo og þurrka hendur

Við kynnum fyrir þeim einverumottuna þegar þau hafa þroska til að meðtaka tilgang hennar. Ef börn sýna óæskilega hegðun er farið yfir reglurnar og ef það skilar ekki árangri þá er boðið upp á val, að fara eftir fyrirmælum eða fara í einveru, mottan er lögð hjá okkur fullorðna fólkinu og börnin fara á hana þar sem þeim gefst tækifæri til að komast úr aðstæðum og/eða hugsa málið. Áður en við beitum einverumottunni og við þau allra yngstu á deildinni þá eru þau tekin úr aðstæðum ef þau sýna óæskilega hegðun.

Þar sem mikil áhersla er á leikinn sem námsleið á Kríudeild kennum við þrjár reglur sem gilda í leiknum:
Glaðir spekingar leika saman
Glaðir spekingar skiptast á
Glaðir spekingar ganga frá

Í lok nóvember og svo aftur í lok apríl eru umbunarveislur hjá okkur. þau fá að velja sér umbun þegar ormurinn er orðinn fullur af Brosum. Í gegnum tíðina hafa þau oftast valið popp en kosið hefur verið um t.d. popp, andlitsmálun, dansiball, horfa á mynd o.þ.h. Lýðræðisleg kosning barnanna.

Á Kríudeild eru flottir krakkar sem fara eftir reglunum sínum 🙂