Hvað er heimspeki með börnum

Heimspekin í Lundarseli

Hugmyndafræðin sem við aðhyllumst er að mestu fengin úr hugmyndabanka barnaheimspekinnar, þar sem við trúum því að börn séu náttúrulegir frumspekingar, hafi hæfileika til að efast, velta fyrir sér og löngun til að læra. Börnin læra mest með því að gera hlutina sjálf og uppgötva með því að spjalla, snerta, skynja og upplifa. Siðfræði, umhyggja og agi eru einnig mikilvæg hugtök í barnaheimspeki sem við leggjum mjög mikið upp úr. (sjá en fremur hér að aftan í kafla 8 um þróunarstarf blaðsíðu 39).

Matthew Lipmann er upphafsmaður barnaheimspekinnar. Hann kom fyrst fram með hugmyndir sínar um heimspeki með börnum í lok sjöunda áratugarins. Barnaheimspekin er ákveðið samræðuform eða leikur. Lipmann taldi að að skortur væri á heimspekilegri vídd í menntun barna að þau sætu berskjölduð nú á tímum hraða og harðsoðinna upplýsinga. Kenning hans er að heimspekileg samræða muni hjálpa við að greina kjarnann frá hisminu. Hugmyndir sínar sækir Lipmann helst í smiðju Johns Dewey um að börn læri með að framkvæma sjálf. Að upphaf hugsunar er forvitni og eldsneyti hennar er efinn. Að ræktun hugans skipti mun meiri máli en þekkingin. Aðaláherslur Lipmanns eru að virkja börnin til ígrundaðrar, skapandi og umhyggjusamrar hugsunar, að tilgangur náms sé að auka hæfni barnanna til að leysa vandamál.

Lipmann og annar kunnur barnaheimspekingur Gareth Matthew horfa til aðferða frumspekinganna Platóns og Sókratesar, en þeir settu heimspekina fram með samræðusniði sem fólst í því að rannsaka vandamál og hugtök með rökræðum. Þeir telja að margt sé líkt með börnum og frumspekingum, börnin hafa hæfileika til að undrast um lífið og spyrja óhikað spurninga.