Markmið

Markmið með SMT – skólafærni í Lundarseli

Markmið SMT-skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í leikskólum og tryggja öryggi og velferð barnanna og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart börnum sem sýna óæskilega hegðun.

Það er fullkomlega eðlilegt að börn sýni ekki alltaf æskilega hegðun, þrjóskist eitthvað við og sleppi sér. Samkvæmt fræðum PMT/SMT hlýða börn í 70% tilvika og við tökum tillit til þess. Ef þau sýna óæskilega hegðun er alltaf farið yfir reglurnar, stoppað við og rætt saman og ef um ítrekaða hegðun er að ræða er boðið uppá val “gefðu næði á meðan Jói er á baðherberginu eða farðu á einverumottuna”. Einverumottan er eitt verkfæri í SMT og hefur verið lítið notað hjá okkur, það er staður/motta sem lögð er á gólfið hjá okkur fullorðna fólkinu, þar sem barninu gefst tækifæri að komast úr aðstæðunum eða að hugsa málið. Börnin eru stutt á mottunni eða jafnmargar mínútur og þau eru gömul. Engin verður reiður, engar skammir, aðeins aðferð til að stoppa ítrekaða óæskilega hegðun.

Við erum að innleiða SMT til að styðja öll börn skólans. Reglurnar fyrir hverja stund í skólanum eru settar fram þannig að þær eru einfaldar, nákvæmar og vel ljóst til hvers er ætlast. Reglur eru hafðar sýnilegar, hengdar upp á veggi og kenndar með sýnikennslu, dæmum og æfingum. Það er hrósað mikið en hvatning er lykillinn í þessari agastefnu. Við hrósum á ýmsa vegu til að umbuna fyrir árangur, framfarir og það sem vel er gert. Skýr mörk eru sett og skilgreind þannig að allt starfsfólkið vinnur eins. Börnunum er gert ljóst með sýnikennslu hvað er minniháttar og hvað ekki, eins og að lemja er óæskileg hegðun, en að hafa hendur og fætur hjá sér er æskileg hegðun.